24 mars, 2006

Óperukvöld færist til.

Nótt í Feneyjum fimmtudaginn 6. apríl.

Vegna ótímabærra afmælisdaga verður óperuferð Óperuhommanna flýtt, frá laugardeginum 8. apríl yfir á fimmtudaginn 6. apríl.
Búið er að taka frá 15 sæti á sýninguna og verður hver og einn að hringja og ganga frá sínum miða. Gefa þarf upp nafnið Ásgeir Þórarinn. Þetta verður að gera sem allrafyrst og í seinasta lagi 3 dögum fyrir sýningu.

Miðaverð er aðeins kr. 500. Þeir sem ætla að mæta eru beðnir að senda línu á asgeiri@mbl.is og staðfesta komu sína, og er þá hægt að semja um sérkjör á kaffihúsi eða veitingastað fyrir hópinn að setjast niður eftir sýningu, sötra örlítið af víni og narta örlítið af snarli.

Óperuhommar eru hvattir til að fjölmenna á þessa sýningu, og starta starfsemi félagsins rækilega. Látið fregnirnar berast til þeirra sem gætu haft áhuga.

Á laugardag verður síðan menningarlegt húllumhæ í afmæli Óla óperuhomma, en meira um það síðar.

-Ásgeir

22 mars, 2006

Fyrsti viðburður Óperuhommanna

Laugardaginn 8. apríl verður fyrsti menningarviðburður Óperuhommanna þegar fjölmennt verður á óperettu Johanns Strauss, Nótt í Feneyjum. Verkið er sett upp af Óperustúdíói Íslensku Óperunnar og eru öll hlutverk skipuð ungum og upprennandi söngnemum.

Eftir sýninguna mun hópurinn hittast á notalegum stað þar sem hægt er að fá létt snarl og veigar á sanngjörnu verði, og skrafa um uppfærsluna.

Miðaverð á sýninguna er aðeins kr. 500, en áríðandi er að áhugasamir skrái sig sem allrafyrst í Óperuhommana og boði þáttöku sína. Það má gera með því að senda línu á asgeiri@mbl.is.

Nánari sýningar um uppfærsluna má finna á heimasíðu Íslensku Óperunnar, www.opera.is

Ágætis grein um verkið sjálft er síðan á Wikipedia, á slóðinni http://en.wikipedia.org/wiki/Eine_Nacht_in_Venedig

-Stjórnin

06 mars, 2006

Óperuhommarnir verða til

Þessi síða er heimili Óperuhommanna á netinu. Óperuhommarnir er, eins og nafnið gefur til kynna, félagsskapur samkynhneigðra áhugamanna um hálistir, þá ekki hvað síst óperur.

Samskonar félagsskapur hefur verið starfræktur um nokkurt skeið í Svíþjóð við miklar vinsældir, og þótti hópi menningarsinnaðra og veraldarvanra íslenskra homma þjóðráð að skapa samskonar vettvang fyrir samkynhneigða hér á landi.

Óperuhommarnir munu hittast í fyrsta skipti laugardaginn 18. mars, í Regnbogasal Samtakanna 78 að Laugavegi 3, 4. hæð. Þessi fyrsti hittingur á að vera fjarska óformlegur, og ekki hvað síst ætlaður til að sjá hve mikill áhugi er fyrir starfseminni og til að skrafa og bollaleggja um stefnu félagsins og uppákomur í framtíðinni.

Þessi fyrsti viðburður Óperuhommanna hefst kl.20, stundvíslega. Kl. 22. hefst síðan í Regnboganum sýning á kvikmyndinni Latter days, og ugglaust að gestir munu vilja fjölmenna á þá ágætu mynd.

Áríðandi er að þeir sem telja sig eiga erindi í félagsskap Óperuhommanna sitji ekki heima þetta kvöld, heldur láti sjá sig og leggi jafnvel eitthvað til málanna. Þá ætti næsti viðburður að geta orðið safaríkari: hvort heldur það verða tónleikar, leikhús- eða óperuferð, erindi og umræður um menningu eða jafnvel bara sívílíserað koníaks- og chesterfield-kvöld á huggulegum stað.

-Stjórnandinn
(Ps: Bráðabirgðapóstfang Óperuhommanna er athi1@hi.is)