
Þessi síða er heimili Óperuhommanna á netinu. Óperuhommarnir er, eins og nafnið gefur til kynna, félagsskapur samkynhneigðra áhugamanna um hálistir, þá ekki hvað síst óperur.
Samskonar félagsskapur hefur verið starfræktur um nokkurt skeið í Svíþjóð við miklar vinsældir, og þótti hópi menningarsinnaðra og veraldarvanra íslenskra homma þjóðráð að skapa samskonar vettvang fyrir samkynhneigða hér á landi.
Óperuhommarnir munu hittast í fyrsta skipti laugardaginn 18. mars, í Regnbogasal Samtakanna 78 að Laugavegi 3, 4. hæð. Þessi fyrsti hittingur á að vera fjarska óformlegur, og ekki hvað síst ætlaður til að sjá hve mikill áhugi er fyrir starfseminni og til að skrafa og bollaleggja um stefnu félagsins og uppákomur í framtíðinni.
Þessi fyrsti viðburður Óperuhommanna hefst kl.20, stundvíslega. Kl. 22. hefst síðan í Regnboganum sýning á kvikmyndinni Latter days, og ugglaust að gestir munu vilja fjölmenna á þá ágætu mynd.
Áríðandi er að þeir sem telja sig eiga erindi í félagsskap Óperuhommanna sitji ekki heima þetta kvöld, heldur láti sjá sig og leggi jafnvel eitthvað til málanna. Þá ætti næsti viðburður að geta orðið safaríkari: hvort heldur það verða tónleikar, leikhús- eða óperuferð, erindi og umræður um menningu eða jafnvel bara sívílíserað koníaks- og chesterfield-kvöld á huggulegum stað.
-Stjórnandinn
(Ps: Bráðabirgðapóstfang Óperuhommanna er athi1@hi.is)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home